Allir eiga rétt á virðingu, óháð þyngd

0

Embætti landlæknis gaf nýverið út skýrslu um viðhorf almennings til holdafars og aðgerðir til að draga úr mismunun á grundvelli holdafars.

Rannsóknir hafa sýnt að fordómar og mismunun á grundvelli holdafars sé algengt vandamál í hinum vestræna heimi sem virðist hafa aukist á undanförnum áratugum. Slíkir fordómar geta haft gríðarlega slæm áhrif á líðan og félagslega stöðu þeirra sem eru í yfirþyngd og minnka í raun líkur á að viðkomandi taki upp heilbrigða lífshætti, þar með auka líkur á magvíslegum heilsufarsvanda.

Skýrslan byggir á fjölþjóðlegri rannsókn sem unnin var í samvinnu við Yale háskóla. Niðurstöðurnar benda til þess að neikvæð viðhorf ríki enn hér á landi gagnvart feitu fólki:

  • 75% svarenda sögðust eiga vin sem hefði orðið fyrir stríðni eða óréttlæti vegna þyngdar sinnar.
  • 42% sögðust eiga fjölskyldumeðlim sem hefði orðið fyrir stríðni eða óréttlæti vegna þyngdar sinnar
  • 50% svarenda sem voru með líkamsþyngdarstuðul í offituflokki (≥30 kg/m2) sögðust hafa orðið fyrir stríðni, þriðjungur sagðist hafa orðið fyrir óréttlátri framkomu og fjórðungur fyrir mismunun á grundvelli þyngdar sinnar.
  • Konur voru tvöfalt líklegri en karlar að greina frá því að hafa orðið fyrir mismunun á grundvelli holdafars.
  • 75% svarenda töldu að stríðni eða einelti í tengslum við holdafar væri algengt og alvarlagt vandamál á meðal barna.

Ljóst er að þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi þess að vinna gegn fordómum og mismunun á grundvelli holdafars og velja ábyrgar leiðir til heilsueflingar sem stuðla jafnhliða að heilbrigðum lifnaðarháttum og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. Allir eiga rétt á virðingu, óháð þynd.

Höfundar íslensku skýrslunnar eru Sigrún Daníelsdóttir verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis og Stefán Hrafn Jónsson félagsfræðingur hjá Embætti landlæknis og prófessor við Háskóla Íslands. Er þetta fyrsta skýrsla sinnar tegundar frá opinberri stofnun á Íslandi.

 

 

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum