Vistvæn innkaup – Heilræði 1 (plastnotkun)

0

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum um mengun af völdum plastnotkunar.

Við framleiðslu á plasti er bæði mikil losun gróðurhúsalofttegunda og annarra eiturefna. Tala nú ekki um þegar plastinu er fargað eða brennt – þá hefur það gríðarleg áhrif.

Í kjölfarið hefur orðið vakning á því hvernig hver og einn getur lagt sitt af mörkum til að draga úr slíkri mengun. Margar leiðir eru til og er ein þeirra vistvæn innkaup.

Á næstu dögum mun ég gefa nokkur góð ráð til að verða vistvænni í innkaupum. Fyrst skulum við skoða hvernig við getum minnkað plastnotkun okkar:

  • Notaðu fjölnota poka. Í mörgum verslunum fást fjölnota pokar sem er hægt að kaupa á verði sem borgar sig fljótt upp sé hann notaður. Mér reiknast til að ef hann er notaður í fimm búðarferðir þá er maður kominn út á sléttu. Þetta eru oft á tíðum mjög hentugir pokar sem hægt að brjóta vel saman og geyma í veski eða hanskahólfi.
  • Ekki kaupa vörur í miklum plastumbúðum ef þú kemst hjá því. Frauðplast hefur til dæmis slæm áhrif á umhverfið meðal annars vegna þess að framleiðslan er gríðarlega orkufrek sem leiðir til mikillar losunar gróðrurhúsalofttegunda og það er að öllu jöfnu ekki endurunnið (1). Einnig er vert að nefna að frauðplast er talið vera mögulegur krabbameinsvaldur af Umhverfissstofnun Bandaríkjanna og fleiri (2, 3). Grænmeti þarf ekki að vera eða á frauðplastbakka. Sumir viðskiptavinir taka jafnvel grænmetið út plastinu í búðinni og skilja það eftir til að vekja athygli á að þetta sé í raun óþarfi. Að vekja athygli á hlutunum og sýna hvernig betur megi fara leiðir oft til breytinga. Hægt er að kaupa litla fjölnota taupoka sem eru hentugir undir grænmeti og ávexti þegar verslað er.
  • Endurnýttu plastið. Með því að flokka plast sérstaklega og skila á endurvinnslustöðvar er hægt að endurnýta plast í annað. Skola þarf matarleyfar af plastinu og þurrka það áður en það er sett í endurvinnslugám.

Eins og sjá má þarf þetta ekki að vera flókið. Byrjaðu á þínum hraða og ekki hafa áhyggjur þó þú gleymir fjölnota pokanum heima. Þá tekurðu hann bara með næst.

Share.

Dr. Ragnhildur er líffræðingur, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum. Hún starfar sem sérfræðingur á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun.