Þjóðarátak gegn mergæxlum

0

Fyrr á þessu ári fékk hópur vísindamanna undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors við Læknadeild og sérfræðings í blóðsjúkdómum við Landspítala, 300 milljón króna styrk til að rannsaka forstig mergæxla og framvindu þess í líkamanum. Mer­gæxli er ólækn­andi sjúk­dóm­ur í bein­merg og ein­kenna sjúk­dóms­ins verður oft ekki vart fyrr en hann hef­ur haft al­var­leg áhrif á heils­una, en árlega greinast um 25 einstaklingar með sjúk­dóm­inn hér á landi. Rann­sókn­ar­verk­efnið hef­ur fengið heitið iStopMM (Ice­land Screens, Treats, or Prevents Multiple Myeloma) og er verndari verkefnisins frú Vigdís Finnbogadóttir.

14317622_10154512841118718_3625767096394210997_n

Þetta er ein viðamesta rannsókn Íslandssögunnar og er áætlað að safna blóðsýnum 140 þúsund Íslendinga til að kanna áhrif skimunar fyrir einkennalausu forstigi mergæxlis. Tilgangur rannsóknarinnar er að auka þekkingu á náttúrulegum gangi forstigsins og hvaða áhrif slík skimun hefur á lífsgæði fólks og batahorfur þeirra sem þróa mergæxli.

 

Rannsóknin hefst á landsvísu í nóvember en ákveðið var að fara af stað með forrannsókn fyrst á Akranesi.

Þessa dagana fá allir Skagamenn, fæddir 1975 eða fyrr, fjólublátt umslag í pósti þar sem þeir eru hvattir til að fara inn á vef verkefnisins og veita heimild til að gefa hluta af blóðsýni sínu. Blóðsýnið yrði svo tekið næst þegar viðkomandi fer í blóðprufu og þurfa þátttakendur því ekki að gera sér sérstaka ferð til að fara í blóðprufu vegna rannsóknarinnar. Blóðsýnið verður svo notað til að skima fyrir forstigi mergæxlis og verður þeim sem greinast boðið að taka þátt í klínískri rannsókn með það að markmiði að þróa áhættulíkan fyrir framþóun sjúkdómsins. Þannig er stefnt að því að geta boðið sjúklingum með mergæxli meðferð mun fyrr en áður.

Heilsan okkar hvetur Skagamenn og aðra landsmenn til að taka þátt í þessari þýðingarmiklu rannsókn með því að fara inn á blodskimun.is og skrá sig inn með aðgangslyklinum sem mun berast í pósti, með Íslykli eða með rafrænum skilríkjum. Góð þátttaka er forsenda þess að hægt verði að svara þeim mikilvægu spurningum sem lagt er upp með og því skiptir þitt framlag gríðarlega miklu máli. Allar nánari upplýsingar má finna á vef rannsóknarinnar.

Share.

Maríanna er lýðheilsufræðingur og doktorsnemi í líf- og læknavísindum