Nýtt lyf við meðgöngueitrun?

0

Vísindamenn í Ástralíu telja sig hafa fundið nýja meðferð við meðgöngueitrun sem felst í því að nota lyf sem nú þegar er notað við sykursýki, kallað metformin. Lyfið hefur marga kosti, sem dæmi hefur þegar verið sýnt fram á að nota megi lyfið á meðgöngu og einnig er lyfið ódýrt. Frekari rannsóknir munu fara fram á næsta ári til að athuga hvort þessar frum-niðurstöður gefi góða raun í stærri hópum.

Hvað er meðgöngueitrun?

Meðgöngueitrun hefur áhrif á bæði móður og barn. Talið er að um 3-8% kvenna fái meðgöngueitrun sem lýsir sér í hækkuðum blóðþrýstingi, útskilnaði eggjahvítuefna í þvagi og bjúg á höndum og fótum.

Meðgöngueitrun getur í versta falli þróast í fæðingarkrampa sem getur verið lífshættulegur bæði móður og barni. Slíkt er þó sem betur fer mjög sjaldgæft þar sem reglulegt meðgöngueftirlit fer fram. Einkenni meðgöngueitrunar hverfa fljótlega eftir fæðingu og það líða venjulega ekki meira en tvær vikur þar til blóðþrýstingur og efnainnihald þvags er komið í eðlilegt horf (1).

Sem dæmi er aukin áhætta á meðgöngueitrun (2):

  • Í fyrstu meðgöngu
  • Hjá konum sem eru eldri en 40 ára
  • Ef lengra en 10 ár eru frá síðustu meðgöngu.
  • Ef það er fjölskyldusaga um meðgöngueitrun
  • Í fjölburameðgöngu
  • Hjá konum með sykursýki
  • Hjá konum með of háan blóðþrýsting
  • Hjá konum með hjartasjúkdóma
  • Hjá konum í offitu
  • Hjá konum með langvinna nýrnasjúkdóma

Meðgöngueitrun kemur oftast ekki fram fyrr en eftir sex mánaða meðgöngu og er algengust undir lok meðgöngu.

Þegar kona fær meðgöngueitrun er henni ráðlagt að hvíla sig og stundum er hún sett á lyf til að lækka blóðþrýstinginn. Fylgjast þarf grannt með móður og barni, þar sem meðgöngueitrun getur haft áhrif á blóðflæði til barnsins. Ef þessi ráð duga ekki til er fæðing framkölluð eða barnið tekið með keisaraskurði. Engin lyf eru nú á markaðnum við meðgöngueitrun.

Þessar frumniðurstöður gefa von um að lyfjameðferðar við meðgöngueitrun megi vænta í framtíðinni en ekki er ráðlagt að nýta lyfið sem meðferð við meðgöngueitrun fyrr en ýtarlegri rannsóknir hafa farið fram.

Share.

Emma er ljósmóðir og í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum. Áður lauk hún námi í véla- og iðnaðarverkfræði.